Menning

Tilraunir eða myndlist utandyra

Viðey Kyrrð og ró, rétt utan við skarkala borgarinnar.
Viðey Kyrrð og ró, rétt utan við skarkala borgarinnar.

Listasafn Reykjavíkur stendur að vanda fyrir skemmtilegum uppákomum nú um helgina. Tilraunastofa fyrir börn og fullorðna verður starfrækt í Hafnarhúsinu á morgun á milli kl. 14 og 16, en boðið var upp á slíka tilraunastofu um síðustu helgi með fádæma góðri aðsókn þar sem um sextíu börn komu saman og fengu útrás fyrir vísindamanninn í sér.

Tilraunastofan er unnin í samvinnu við Hugmyndasmiðjuna og Myndlistaskólann í Reykjavík og er sett upp í tengslum við sýninguna Tilraunamaraþon sem nú stendur yfir í Hafnarhúsinu. Börn og fjölskyldur þeirra fá tækifæri á tilraunastofunni til að vinna saman í tilraunaumhverfi þar sem hugmyndafluginu er gefinn laus taumur innan um óvenjulega hluti sem hvetja til leiks og sköpunar.

Fyrir þá sem heldur vilja eyða deginum utandyra mætti stinga upp á því að heimsækja Viðey og njóta þar náttúrufegurðarinnar, en auk þess er þar hægt að skoða listaverk eftir heimskunna listamenn eins og Áfanga eftir Richard Serra og Friðarsúlu Yoko Ono. Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykajvíkur, mun á morgun segja gestum eyjarinnar frá hinu síðarnefnda; tilurð Friðarsúlunnar sem Yoko lét reisa í Viðey á síðasta ári og gildi hennar fyrir borgina í norðrinu. Leiðsögn Hafþórs hefst við Viðeyjarstofu kl. 14.30 og eru allir velkomnir.-vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×