Erlent

Fyrirætlanir flugræningja óljósar

Óli Tynes skrifar

Flugræningjar sem rændu súdanskri farþegavél í gær og létu hana fljúga til Libyu hafa sleppt öllum farþegunum 95 úr haldi.

Þeir eru hinsvegar ennþá með sjö áhafnarmeðlimi í gíslingu. Fréttir af fyrirætlunum þeirra eru misvísandi. Meðal annars hefur verið sagt að þeir hafi krafist þess að vélinni verði flogið til Parísar.

Flugvélinni var lent í vin í Sahara eyðimörkinni fjarri mannabyggðum.

Yfirvöld í Libyu segjast vera í samningaviðræðum við ræningjana. Þeir eru sagðir vera tíu talsins og tilheyra uppreisnarhópi í Darfur héraði í Súdan. Talsmenn þess hóps hafa þó neitað aðild að ráninu.

Ekki hefur verið skýrt frá því að ræningjarnir hafi sett fram einhverjar kröfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×