Viðskipti innlent

Fall í Japan á fyrsta degi

Maður skoðar upplýsingaskilti með breytingum á gengi hlutabréfa í kauphöllinni í Tókýó í Japan.
Maður skoðar upplýsingaskilti með breytingum á gengi hlutabréfa í kauphöllinni í Tókýó í Japan. Mynd/AFP

Nikkei-vísitalan féll um rúm fjögur prósent á fyrsta viðskiptadegi ársins í kauphöllinni í Japan í dag og hefur hún ekki verið lægri í um 17 mánuði. Inn í fallið spila áhyggjur japanskra fjárfesta um styrkingu jensins, sem geti komið niður á útflutningi, og hátt olíuverð, sem stendur í methæðum.

Þá þykja menn uggandi um hugsanlegan samdrátt í Bandaríkjunum en það getur komið illa við afkomu japanskra útflutningsfyrirtækja í hátækni- og bílaiðnaði. Gengi fyrirtækja í þeim geirum lækkaði mest, eða um allt að tæp 10 prósent.

Hlutabréfamarkaður í Japan hefur verið lokaður yfir áramótin og opnaði ekki nema hluta úr degi í nótt. Fyrsti heili viðskiptadagurinn verður hins vegar á mánudag, að því er breska ríkisútvarpið bendir á.

Nikkei-vísitalan stendur í 14.691,41 stigi og hefur ekki verið lægri síðan í júlí í hitteðfyrra.

Til samanburðar var fyrsti viðskiptadagurinn í Kauphöll Íslands í gær en þá féll Úrvalsvísitalan um 2,75 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×