Innlent

Gefur lítið fyrir rökstuðning ráðherra

Guðmundur Kristjánsson hæstaréttarlögmaður hyggst kvarta til umboðsmanns Alþingis vegna þeirrar ákvörðunar Árna Mathiesen, setts dómsmálaráðherra, að skipa Þorstein Davíðsson í embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóms Austurlands.

Þetta ákvað Guðmundur eftir að hafa kynnt sér rökstuðning Árna Mathiesen fyrir skipuninni. Veigamestu rökin í rökstuðningi ráðherra voru þau að Þorsteinn hefði fjölbreytta reynslu og þekkingu, ekki síst vegna starfa sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra um fjögurra ára skeið.

Guðmundur sagði í samtali við Vísi að hann gæfi lítið fyrir rökstuðninginn og hann myndi nú undirbúa af kostgæfni kvörtun sína til umboðsmanns Alþingis.

Guðmundur var auk tveggja annarra metinn hæfari en Þorsteinn Davíðsson til starfans af sérstakri matsnefnd. Annar þeirra, Pétur Dam Leifsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri, óskaði einnig eftir rökstuðningi ráðherra vegna skipunarinnar. Pétur sagði í samtali við Vísi að hann hefði ekki séð rökstuðning ráðherra og því hefði hann ekki ákveðið hvort hann myndi leita til umboðsmanns Alþingis með málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×