Innlent

Ræða um rökstuðning Árna á næstunni

Pétur Kr. Hafstein.
Pétur Kr. Hafstein. MYND/GVA

Nefndin sem fjallaði um hæfi umsækjenda um embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Austurlands fyrir jól kemur saman á næstu dögum til þess að ræða rökstuðning Árna Mathiesen, fjármálaráðherra og setts dómsmálaráðherra, fyrir því að skipa Þorstein Davíðsson í embættið.

Eins og fram hefur komið í fréttum gekk Árni gegn umsögn nefndarinnar sem taldi þrjá umsækjendur um dómaraembættið hæfari en Þorstein. Nefndin starfar samkvæmt lögum og á að skipa umsækjendum í flokka eftir hæfi.

Rökstuðningur Árna Mathiesen fyrir skipuninni var birtur í dag og veigamestu rökin í rökstuðningi ráðherra voru þau að Þorsteinn hefði fjölbreytta reynslu og þekkingu, ekki síst vegna starfa sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra um fjögurra ára skeið.

 

Guðmundur Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, einn þeirra sem metinn var hæfari en Þorsteinn Davíðsson, hefur þegar ákveðið að leita til umboðsmanns Alþingis vegna ákvörðunar ráðherra.

Pétur Kr. Hafstein, formaður matsnefndarinnar sem fjallaði um hæfi umsækjenda, sagði í samtali við Vísi í dag að nefndin myndi að líkindum funda um rökstuðning ráðherra á næstu dögum. Aðspurður sagðist hann vera nýbúinn að sjá rökstuðninginn og vildi ekki tjá sig um hann. Hann reiknaði hins vegar með að nefndin myndi senda frá sér álit um niðurstöðu ráðherra að lokinni umfjöllun um hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×