Innlent

Þorsteinn lætur gagnrýni ekki hafa áhrif

Þorsteinn Davíðsson segist ekki ætla að hætta störfum sem dómari við héraðsdóm Norðurlands eystra og Austurlands þrátt fyrir gagnrýni á ráðninguna. Árni M. Mathiesen segir dómnefnd um hæfi umsækjenda fara með rangt mál, en formaður nefndarinnar segir Árna fara með rangfærslur.

Árni sendi frá sér rökstuðning í fyrradag vegna skipunar Þorsteins í dómarastöðuna. Skipunin hefur verið umdeild þar sem Árni gekk gegn áliti nefndar sem mat hæfi umsækjenda um starfið og skipaði Þorstein þrátt fyrir að þrír umsækjendur um starfið væru metnir hæfari.

Dómnefndin sem mat hæfni umsækjendanna sendi í gær frá sér greinagerð þar sem hún átaldi störf ráðherrans. Nefndin sagði dómsmálaráðherra hafa tekið ómálefnalega ákvörðun og gegnið að starfsheiðri og tilverugrundvelli dómnefndarinnar.

Árni sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag greinagerðina gallaða. Hún sé ógagnsæ, lítið rökstudd og í henni gæti innra ósamræmis við mat á reynslu sem hin ýmsu störf gefa. Árni segir nefndina fara með rangt mál þegar hún haldi því fram að það sé einsdæmi að ráðherra fari ekki að áliti nefndarinnar. Um það séu bæði nýleg og eldri dæmi.

Pétur Kr. Hafstein, formaður dómnefndar sem metur hæfi dómara, segir slíkar rangfærslur yfirlýsingu Árna M. Mahtiesen, setts dómsmálaráðherra, í dómaramálinu að nefndin vilji ekki elta ólar við þær í fjölmiðlum. Nefndin standi við greinagerð sína.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, segir rökstuðning Árna ekki halda vatni. Það sé ákaflega dapurlegt hvernig fjármála- og iðnaðarráðherra séu að gefa öllu sem heitir fagleg aðferðafræði, við mannráðningar hjá hinu opinbera, langt nef.

Þorsteinn hefur tekið við dómarastarfinu. Hann sagði í samtali við fréttastofu í dag að deilurnar væru ekki hans mál. Það hefði ekki hvarflað að honum að þiggja ekki stöðuna eða segja upp starfinu vegna deilnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×