Viðskipti innlent

Evrópa fellur

Þýskir verðbréfamiðlarar segja marga fjárfesta hafa selt bréf í örvæntingakasti.
Þýskir verðbréfamiðlarar segja marga fjárfesta hafa selt bréf í örvæntingakasti. Mynd/AFP

Skellur hefur verið á hlutabréfamörkuðum víða um heim í dag, þar á meðal í Kauphöllinni. Gengi bréfa í SPRON og FL Group hefur fallið um á milli sjö til átta prósent. Stórar eignir FL Group og Existu erlendis hafa fallið um allt að átta prósent.

Gengi bréfa í FL Group stendur í 9,9 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra í fjögur ár. SPRON stendur í 6,75 krónum á hlut.

Mesta fallið hefur hins vegar verið á gengi bréfa í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum en það hefur farið niður um rúm ellefu prósent í dag.

Stemningin er afar léleg á evrópskum hlutabréfamarkaði. Þannig féll FTSE-vísitalan um fimm prósent um hádegisbil í Bretlandi og hin þýska Dax um 5,7 prósent en þýskir fjárfestar munu hafa selt bréf sín í örvæntingakasti yfir yfirvofandi samdráttarskeiði sem rót sína á að rekja til sprunginnar fasteignabólu í Bandaríkjunum.

Úrvalsvísitalan féll til skamms tíma um rúm fjögur prósent en hefur jafnað sig lítillega síðan þá. 

Sé litið til einstakra félaga sem íslensk félög eiga stóra hluti í má nefna að gengi bréfa í Storebrand, sem Kaupþing og Exista eiga tæpan þrjátíu prósenta hlut í, hefur fallið um átta prósent. Þá hefur gengi bréfa í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo, sem Exista á fjórðung í, hefur fallið um rúm fjögur prósent á sama tíma.

Þá hefur gengi bréfa í Commerzbank, sem FL Group á 1,15 prósenta hlut í, hefur fallið um rúm 5,5 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×