Viðskipti innlent

Illa unnin greining á Existu, segir stjórnarformaðurinn

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu. Hann segir greiningaraðila Enskilda ekki þekkja vel tili félagsins og gerast sekan um rangfærslur.
Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu. Hann segir greiningaraðila Enskilda ekki þekkja vel tili félagsins og gerast sekan um rangfærslur. Mynd/GVA

„Þessar hugleiðingar greiningarmanns Enskilda eru illa unnar og fjarri öllum veruleika. Greiningarmaðurinn þekkir greinilega ekki vel til Exista og gerir sig þar að auki sekan um rangfærslur í útreikningum," segir Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu.

Eins og fram hefur komið segir greiningardeild sænska bankans Enskilda lausafjárstöðu Existu verri en af sé látið og nemi hún 365 milljónum evra, jafnvirði 35,4 milljörðum íslenskra króna. Deildin miðar í umfjöllun sinni við fall á eignasafni Existu frá hæsta gildi síðasta sumar en þá stóð gengi hlutabréfa víðast hvar í hæstu hæðum.

Þá segir í umfjölluninni sömuleiðis, að svo geti farið að Exista verði að selja eignir sínar í norska fjármálafyrirtækinu Storebrand og finnska tryggingafélaginu Sampo með afslætti.

Þá er í umfjölluninni dregin frá hlutdeild Exista í hagnaði við sölu á Sampo. Slíkur viðbótarfrádráttur er rangur, samkvæmt upplýsingum frá Existu.

Lýður segir Existu hafa nýverið sent frá sér tilkynningu um trausta lausafjárstöðu og verði uppgjör félagsins birt í næstu viku. „Við munum þá gera nákvæma grein fyrir stöðu félagsins," segir Lýður.

Erlendur Hjaltason, forstjóri Existu sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir hálfum mánuði aðgang fyrirtækisins að lausafé nægja til að mæta endurfjármögnunarþörf félagsins nær allt árið.

„Aðgangur okkar að lausu fé í árslok mætir endurfjármögnunarþörf félagsins til næstu 50 vikna og eru þá ekki taldar með auðseljanlegar eignir," sagði hann og benti á að endurfjármögnun á árinu nemi einungis um fjórðungi af heildarfjármögnun síðasta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×