Norski fjármálarisinn Storebrand og finnska tryggingafélagið Sampo, sem Exista og Kaupþing eri stærstu hluthafar í, tóku sprettinn í norrænu kauphallarsamstæðunni þegar viðskipti hófust í dag.
Gengi bréfa í Storebrand skaust upp um fimmtán prósent við upphaf viðskipta en jafnaði sig eftir því sem á leið og stendur í tæpri tólf prósenta hækkun. Það hefur fallið um tæp 23 prósent frá áramótum.
Gengi Sampo hefur á móti hækkað um tæp 4,5 prósent í dag en hefur lækkað um 5,6 prósent frá áramótum.
Þetta er nokkuð í samræmi við hækkun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í dag eftir skell í vikunni.
Kaupþing og Exista eiga saman um 29 prósenta hlut í Storebrand og er Kaupþing þar stærsti hluthafinn. Þá á Exista tæpan fimmtung í Sampo og er stærsti hluthafinn þar.