Viðskipti innlent

Flaga fellur eftir háflug

Unnið að smíði svefnrannsóknartækis innan veggja Flögu.
Unnið að smíði svefnrannsóknartækis innan veggja Flögu. Mynd/E.Ól.

Gengi Flögu féll um 3,2 prósent eftir ofsaflug í vikunni. Gengi bréfa í svefnrannsóknarfyrirtækinuhafði legið í lægstu lægðum alla síðustu viku en tók skyndilegan kipp undir vikulokin og rauk upp um rúm 160 prósent á fjórum viðskiptadögum.

Venjulega eru afar fá, ef engin, viðskipti með bréf í félaginu og þarf því lítið til að hreyfa við gengi þess hvort sem er upp eða niður. Þetta er mesta lækkun á skráðu félagi í Kauphöllinni í dag.

Flaga hefur eftir sem áður hækkað langmest félaga sem skráð eru í Kauphöllina frá áramótum, eða um rúm 42 prósent. Hin félögin eru Century Aluminum, sem hefur hækkað um tæp fjögur prósent, og Nýherji, en gengi þess hefur hækkað um tæp 2,6 prósent frá áramótum.

Önnur félög hafa ýmist staðið í stað eða lækkað. Mesta lækkunin er á gengi bréfa í Icelandic Group en þau hafa fallið um tæp 34 prósent. Fast á hæla þess eru FL Group og Exista.

Century Aluminum er hástökkvari dagsins en gengi bréfa í félaginu hækkaði um rúm sex prósent í dag.

Af félögum í Úrvalsvísitölunni hækkaði Exista mest, eða um rúm 4,4 prósent. Næstmesta hækkunin var hjá SPRON, sem fór upp um 1,63 prósent. Kaupþing lækkaði hins vegar mest af félögum í Úrvalsvísitölunni, eða um 1,15 prósent.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,32 prósent og stendur vísitalan í 5.464 stigum. Hún hefur fallið um rúm 13,5 prósent frá áramótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×