Viðskipti innlent

Fyrsta hækkun í Kauphöllinni í hálfan mánuð

Lýður og Ágúst Guðmundssynir, kenndir við Bakkavör.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir, kenndir við Bakkavör.

Gengi hlutabréfa í Existu rauk upp um 7,3 prósent síðla dags í Kauphöllinni. Á eftir fylgdi FL Group, sem hækkaði um 6,33 prósent, og SPRON, sem hækkaði um rúm fjögur prósent. Öll fyrirtækin hafa legið í lægsta sögulega gildi þeirra síðustu daga.

Á eftir fylgdu bankarnir, en gengi þeirra hækkaði um 2,3 til 3,5 prósent.  

Gengi bréfa í Eik banka, 365, Össur og Teymi lækkaði á sama tíma. Mesta lækkunin var á gengi færeyska bankans, sem féll um 3,3 prósent.

Finnska tryggingafélagið Sampo, sem Exista á tæpan fimmtungshlut í, greindi frá því í dag að hluthafar fengju 1,2 evrur á hlut í arðgreiðslur. Það jafngildir því að Exista fær 13,8 milljarða króna í hagnað af hlut sínum og má vera að það spili inn í hækkun á gengi félagsins.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,24 prósent í dag og fór vísitalan yfir 5.000 stigin en hún endaði í 5.006 stigum.

Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Úrvalsvísitalan hækkar í enda dags í hálfan mánuð en síðast hækkaði hún 30. janúar síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×