Innlent

Slökkviliðsmenn í hrakningum í Grímsnesi

Slökkvilið, lögreglumenn og sjúkralið frá Selfossi voru kallaðir að sumarbústað í Grímsnesi í gær þegar kviknaði í skúr sem stóð við bústaðinn. Samkvæmt heimildum frá lögreglunni brugðust eldri hjón, sem voru í bústaðnum, hárrétt við og voru að mestu leyti búin að slökkva eldinn þegar slökkviliðið kom á staðinn. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús með vott af reykeitrun.

Slökkviliðsmenn lentu hins vegar í hrakningum þegar bíllinn þeirra festist í skafli á veginum sem liggur upp að bústaðnum og komst ekki á leiðarenda. Þeir dóu þó ekki ráðalausir, og eins og sést á meðfylgjandi myndum, ferjuðu lögreglumenn og slökkviliðsmenn handslökkvitæki yfir í lögreglujeppa. Að sögn lögreglunnar gekk slökkvistarf vel þegar slökkviliðsmenn voru komnir að bústaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×