Innlent

Ekki fyrsti misskilningur Gísla og Ástu

Misskilningur leiddi til þess að kjósa þurfti tvisvar um varaformann í umhverfis og samgönguráð Reykjavíkur í gær. Sjálfstæðismenn töldu einn fulltrúa sinn tilheyra F-lista og að þess vegna ætti varaformaður nefndarinnar að koma úr röðum sjálfstæðismanna.

Meirihlutinn í Reykjavík hafði samið um það að F-listi fengi varaformann í þeim nefndum sem aðeins einn fulltrúi F-lista sæti í nefnd. Á fundi umhverfis- og samgönguráðs í gær stakk Gísli Marteinn Baldursson, formaður nefndarinnar, upp á því að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir í varaformannssætið.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna, stakk hins vegar uppá Ástu Þorleifsdóttur, F-lista, í sætið. Tillaga Gísla kom Ástu á óvart sem af þeim sökum kaus að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. Við það féllu atkvæði jöfn milli Ástu og Þorbjargar og ganga þurfti til kosninga að nýju. Samkvæmt heimildum fréttastofu þá bað Gísli Ástu um að eiga við sig orð sem að því loknu kaus Þorbjörgu sem varaformann.

Í samtali við fréttastofu í morgun sagði Ásta kosninguna hafa byggst á þeim misskilningi sjálfstæðismanna að Helga Jóhannsdóttir, Sjálfstæðisflokki, er gift Ómari Ragnarssyni stofnanda Íslandshreyfingarinnar. Þar með töldu sjálfstæðismenn að Helga hlyti fylgja eiginmanni sínum að málum og vera fulltrúi F-lista en ekki sjálfstæðismanna og því ætti varaformannssætið að falla þeim í skaut. Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur til að leiðrétta þetta, annaðhvort með því að víkja Helgu úr nefndinni og fá inn mann frá F-lista eða með því að kjósa nýjan varaformann.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem misskilnings gætir milli Gísla Marteins og Ástu. Í tíð sjálfstæðismanna og Framsóknar í borgarstjórn var Ásta áheyrnarfulltrúi í umhverfisnefnd þegar nefndin fór í heimsókn til Seattle. Þá fékk Ásta ekki að fara með nefndinni út sem mun vera í fyrsta og eina skiptið sem áheyrnarfulltrúa er meinuð þátttaka í slíkri ferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×