Innlent

Framtíð Nasa rædd í skipulagsráði

Óskar Bergsson, áheyrnarfulltrúi framsóknarmanna í skipulagsráði segir að málefni Nasa við Austurvöll hafi verið til umræðu á fundi skipulagsráðs í dag án þess að niðurstaða væri tekin í málinu. Hugmyndir eru uppi um að rífa salinn sem hýsir tónleikastaðinn í dag en gert er ráð fyrir að endurbyggja hann að nýju á sama stað, eða í kjallara þeirrar byggingar sem á að reisa á reitnum.

Óskar segir að á fundinum hafi menn verið beðnir um að velta því fyrir sér með hvaða hætti best sé að gera þetta og segir hann almenna sátt í nefndinni um að taka öll sjónarmið til athugunar. Þegar fréttist af því að til stæði að rífa Nasa í gær mótmæltu margir og Kári Sturluson tónleikahaldari fór þar fremstur í flokki.

Óskar ítrekaði að ekki stæði til að rífa gamla húsið sem stendur við Austurvöllinn og kennt er við Kvennaskólann en að hugmyndin sé að rífa bakhúsið sem hýsir salinn sjálfan. Hann nefndi einnig að menn væru sammála um mikilvægi þess að þarna komi þá salur sem væri með gluggum sem vísa út í Vallarstrætið, sem tengir saman Austurvöll og Ingólfstorg og er í dag með dimuustu strætum borgarinnar.

Að sögn Óskars hefur engin ákvörðun verið tekin í málinu, hvort salurinn verði endurbyggður í upprunalegri mynd á sama stað, eða hvort hann verði endurbyggður neðanjarðar. „Þetta eru bara útfærsluatriði sem menn eiga eftir að skoða," sagði Óskar Bergsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×