Innlent

Aldraðir fá inni í Heilsuverndarstöðinni

Frá undirritun samningsins í dag.
Frá undirritun samningsins í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra og María Ólafsdóttir, yfirlæknir eignarhaldsfélagsins Heilsuverndarstöðvarinnar, skrifuðu í dag undir samning um rekstur 20 skammtímahvíldarrýma fyrir aldraða skjólstæðinga heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og 30 dagvistarrýma þar sem áhersla verður lögð á endurhæfingu. Þetta kemur fram á vef heilbrigðsráðuneytisins.

Þar segir einnig að um tilraunaverkefni til hálfs árs sé að ræða og er gert ráð fyrir að starfsemin hefjist í húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg í marsbyrjun. Þá verður á samningstímanum unnið að útboði á grundvelli þeirra upplýsinga sem fást af verkefninu.

Rétt á þjónustu Heilsuverndarstöðvarinnar eiga aldraðir sem að mati heimahjúkrunar þurfa tímabundna vistun vegna dægurvillu, til að hvíla umönnunaraðila, vegna skyndilegra veikinda eða ef sá sem annast viðkomandi forfallast skyndilega. Boðið upp á sveigjanlegan vistunarmöguleika í hvíldarrýmum með vistun frá einum sólarhing í allt að fjórar vikur.

Samningurinn gerir enn fremur ráð fyrir að einstaklingar fái að vera í dagdvöl með endurhæfingu í tiltekinn tíma og að hámarki 8 vikur. Þjónusta fyrir dagdvöl með endurhæfingu verður opin frá klukkan átta á morgnana til sjö á kvöldin. Þannig verður einstaklingum boðið upp á að hefja dagdvöl árla morguns og fram undir hádegi. Þeim sem fara heim um klukkan sjö verður boðið upp á að snæða kvöldverð og að taka lyf sín áður en dagdvöl lýkur. Heimilt verður að hafa opið um helgar.

Þjónustan var boðin út á vegum Ríkiskaupa sem þróunarverkefni. Eitt tilboð barst í þjónustuna, frá Heilsuverndarstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×