Innlent

Tillögur um Miklubraut í stokk

Miklabraut verður lögð í stokk milli Kringlumýrarbrautar og Snorrabrautar, samkvæmt tillögum vinnuhóps Vegagerðar og Reykjavíkurborgar, sem verið er að kynna í borgarkerfinu. Lagt er til að framkvæmdir hefjist á næsta ári og þeim verði að fullu lokið eftir sex ár.

Menn hafa lengi deilt um það hvernig umferðarvandinn um þessa helstu samgönguæð Reykjavíkurverður verður best leystur til frambúðar. Hugmyndir um mislæg gatnamót hafa ýmist verið uppi á borðum eða þeim stungið oní skúffu, eftir því hver hefur verið við völd í Reykjavík. Meirihlutaskipti í borginni komu hins vegar ekki í veg fyrir að Vinnuhópur Vegagerðar og borgarinnar héldi áfram að starfa og hann hefur nú lagt fram tillögur, sem verkfræðistofan Línuhönnun og grafíkteiknarar Onnó hafa myndgert eins og hér sést.

Gerð mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar yrðu fyrsti áfanginn í liðlega tólf milljarða króna verkefni, samkvæmt tillögunum, en efsti hlutinn yrði hringtorg. Þessi hluti verksins yrði sá langdýrasti, upp á 6,8 milljarða króna. Gatnamótin yrðu á þremur hæðum. Annar áfangi verksins felst í kaflanum um Lönguhlíð en þar lægi Miklabraut í stokki neðanjarðar og mjó húsagata ofanjarðar en hringtorg yrði á gatnamótum við Lönguhlíð og Skaftahlíð. Farið yrði í þennan áfanga á árunum 2009 til 2012. Þriðji og síðasti kaflinn yrði vestasti hlutinn að Snorrabraut en ekið yrði niður í stokkinn þar sem Miklatorg var áður. Þessi síðasti áfangi yrði unnin á árunum 2013 til 2014. Samkvæmt skýrslu vinnuhóspins, undir formennsku Jónasar Snæbjörnssonar, er arðsemi verkefnisins metin á tólf prósent.

Andstaðan við mislæg gatnamót á þessum stað hefur meðal annars byggst á því hversu fyrirferðarmikil þau yrðu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×