Innlent

Fimm þúsund krónurnar duga skemur

Fyrir fjórum árum gat meðalfólksbíll ekið frá Reykjavík langleiðina á Kópasker fyrir fimm þúsund krónur en nú kemst hann aðeins á rétt fram hjá Akureyri.

Bensínverð náði í vikunni sögulegu hámarki hér á landi. Nú er lítir af bensíni víða á 137,9 krónur í sjálfsafgreiðslu. Í febrúar 2005 var hægt að aka langleiðina á Kópasker frá Reykjavík fyrir fimm þúsund krónur. Miðað er við meðalbíl sem eyðir níu lítrum á hundraði. Þá kostaði lítrinn af bensíni töluvert minna en nú eða 98,7 krónur í sjálfsafgreiðslu. Ári síðar var hægt að aka langleiðina í Ásbyrgi fyrir sömu upphæð. Milli áranna 2006 og 2007 hækkaði verð lítið en árið 2007 hefði verið hægt að aka aðeins lengra en á Tjörnes fyrir upphæðina. Núna, þegar verð á bensíni hefur náð sögulegu hámarki, yrði bíllinn hins vegar stopp um það leyti sem keyrt er framhjá flugvellinum á Akureyri.

Í fréttum okkar í gær sagði Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB að hækkanir á eldsneytisverði síðasta árið hafi kostað meðalfjölskyldu 40 þúsund krónur. Fyrir þessa upphæð gæti fjögurra manna fjölskylda keypt sér þrettán sinnum pítsu í kvöldmatinn miðað við að pítsan væri sótt og tilboð nýtt. Fjögurra manna fjölskylda gæti líka farið ellefu sinnum í bíó fyrir fjörtíu þúsund krónurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×