Innlent

Kópavogsbær tekur við leikskólanum Hvarfi

Á fundi bæjarráðs Kópavogs í gær var ákveðið að bæjaryfirvöld tækju við rekstri leikskólans Hvarfs þegar þjónustusamningur við einkaaðila rennur út 1. Maí. Óvissa hafði ríkt í Hvarfi frá því í október og var þjónustusamningi við ÓB Ráðgjöf sem rekur leikskólann sagt upp um áramót.

Fræðslustjóra Kópavogs ásamt leikskólafulltrúa, bæjarlögmanni og starfsmannastjóra var á fundinum í gær falið að undirbúa yfirtöku bæjarins á rekstrinum.

ÓB Ráðgjöf sinnir fjölmörgum verkefnum í skólum sem ganga vel, meðal annars forvarnarverkefninu Hugsað um barn. Þá fá nemendur í hendur tölvustýrða dúkku sem er hönnuð eins og ungabarn og þurfa að sinna þörfum hennar yfir eina helgi.

Þór Jónsson upplýsingafulltrúi bæjarins segir að rekstrarerfiðleikar einkaaðilanna hafi ollið vandræðum á skólanum. Í fundargerð segi að heppilegra væri að bærinn tæki yfir og eyddi óvissu.

Ólafur Grétar Gunnarsson annar eigenda ÓB Ráðgjafar segir afar dapurt að þurfa að hætta rekstrinum. Mikil þörf sé fyrir að hugsjónafólk sem hafi áhuga á menntamálum fái að taka þátt í þeim.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×