Innlent

Engin ákveðin svör frá ríkisstjórninni í kjaramálum

Ekki verður skrifað undir kjarasamninga nema ríkisstjórnin komi að málinu segir Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar funduðu með forystu Alþýðusambandsins í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun og sitja nú á fundi með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins. Rætt er um mögulegar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem aðilar vinnumarkaðarins náðu saman um í gær.

Grétar Þorsteinsson sagði í viðtali við fréttamann Stöðvar 2 í hádegisfréttum að ASÍ hefði ekki fengið nein ákveðin svör frá ríkisstjórinni um hennar aðkomu að samningum. Hins vegar yrði farið í praktíska vinnu við að fara yfir tillögur ASÍ í þessum efnum.

Grétar minnti á að tillögur ASÍ hefðu legið fyrir frá því í byrjun desember en ríkisstjórnin hefði í byrjun árs hafnað hugmyndum um sérstakan 20 prósenta persónuafslátt fyrir þá lægst launuðu. Ljóst væri að þær hugmyndir yrðu ekki að veruleika en aðrar hugmyndir væru til skoðunar hjá ríkisstjórninni.

Aðspurður sagði Grétar að ef það ætti að klára kjarasamninga á næstu dögum yrði ríkisstjórnin að koma fram með sitt útspil og ekki yrði skrifað undir samninga fyrr en það lægi fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×