Innlent

Annþór fannst inni í fataskáp

Annþór Kristján Karlsson.
Annþór Kristján Karlsson.

Annþór Kristján Karlsson fannst inni í fataskáp í íbúðarhúsnæði í Mosfellsbæ þegar hann var handtekinn um nú fyrir skömmu eins og Vísir greindi frá kl. 18. Annþór kom fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness og var úskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald. Annþór var laus í tæpa tólf tíma.

Annþór var handtekinn á afmælisdaginn sinn þann 1. febrúar síðastliðinn og var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Var það í tengslum við hraðsendingarsmyglmálið svokallaða. Það mál tengist smygli á 4,6 kg af amfetamíni og rúmum 600 grömmum á kókaíni.

Hann hefur verið í einangrun á Litla-Hrauni í tvær vikur en var færður í fangaklefa á lögreglustöðinni við Hverfisgötu seinni partinn í gær. Ætlunin var að yfirheyra Annþór rétt eftir hádegi í dag og í kjölfarið átti að ákveða hvort fara ætti fram á framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir honum. Annþór hafði því ekki verið á lögreglustöðinni við Hverfisgötu nema í rétt rúman hálfan sólarhring þegar hann lét til skara skríða.

Fangaklefi hans var opinn í nótt en hann var á gangi sem er á efstu hæð lögreglustöðvarinnar og fór Annþór út um glugga á þeirri hæð. Hann var einungis klæddur í hvítan bol, gallabuxur og strigaskó þegar hann lét sig hverfa.

Braut hann rúðuna í glugganum og hafði orðið sér út um kaðal sem hann fann inni í geymslu rétt áður. Að sögn Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns virðist hann hafa komist eitthvað áleiðis í kaðlinum en greinilegt er að hann hefur hoppað úr talsverðri hæð. Ekki er vitað hvenær uppgötvaðist um hvarf Annþórs en hann er talinn hafa strokið um klukkan fimm í morgun.

Lögreglan lýsti fyrst eftir Annþóri klukkan rúmlega tíu í morgun. Mikil leit fór þá í gang og lýstu fjölmiðlar eftir Annþóri en flugvellir og hafnir voru vaktaðar. Margar vísbendingar bárust og sögðu sumar þeirra að sést hefði til hans bæði á Reyðarfirði og í Skotlandi.

Einnig fréttist af honum vafrandi á Netinu en hann var skráður inn á Myspace-heimasíðu sína af og til í dag. Síðast var hann þar inni um hálffimm leytið. Þar á hann að hafa auglýst afmælisveislu í kvöld á ótilgreindum stað. Einnig auglýsti hann eftir afnot af íbúð í nokkra daga.

Annþór fór þó aldrei lengra út fyrir höfuðborgina en upp í Mosfellsbæ því hann fannst í íbúðarhúsnæði í bænum rúmum tólf tímum eftir að hann stökk út um gluggann á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.

Karlmaður og kona sem handtekinn voru í dag vegna gruns um að þau hefðu aðstoðað annþór við flóttann voru látin laus eftir yfirheyrslur í dag. Karlmaður, sem handtekinn var í húsinu í Mosfellsbæ með Annþóri, er enn í gæslu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×