Innlent

Tilnefningar til blaðamannaverðlauna tilkynntar

Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2, er tilnefndur fyrir upplýsandi fréttir úr hversdagslífi á landsbyggðinni
Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2, er tilnefndur fyrir upplýsandi fréttir úr hversdagslífi á landsbyggðinni

Kristján Már Unnarsson, fréttamaður á Stöð 2, Pétur Blöndal, blaðamaður á Morgunblaðinu, og Óli Kristján Ármansson, blaðamaður á Fréttablaðinu, eru tilnefndir til blaðamannaverðlauna ársins 2007. Tilnefningarnar voru opinberaðar í dag en verðlaunin sjálf verða afhent í næstu viku.

Flokkar verðlaunanna eru: 1) Blaðamannaverðlaun ársins 2007; 2) Besta umfjöllun ársins 2007; og 3) Rannsóknarblaðamennska ársins 2007.

Tilnefningar dómnefndar til blaðamannaverðlauna 2007 eru eftirfarandi:

 

Blaðamannaverðlaun ársins 2007

Kristján Már Unnarsson, Stöð 2, fyrir upplýsandi fréttir úr hversdagslífi á landsbyggðinni þar sem hann á látlausan en áhrifaríkan hátt varpaði ljósi á ýmsar þær þjóðfélagsbreytingar sem eru að verða á íslensku samfélagi.

Pétur Blöndal, Morgunblaðinu, fyrir fréttaskýringu og umfjöllun um eitt stærsta fréttamál ársins, sem var REI - málið og ýmsar pólitískar hliðar þess.

Óli Kristján Ármannsson, Fréttablaðinu, fyrir aðgengileg og upplýsandi skrif um efnahagsmál og viðskipti.

 

Besta umfjöllun ársins 2007

Jóhannes Kr. Kristjánsson og Kristinn Hrafnsson, Stöð 2, fyrir umfjöllun í Kompási um byssur á svörtum markaði á Íslandi, um ástandið í Írak og um heilablóðfall.

Baldur Arnarson, Morgunblaðinu, fyrir fræðandi og áhrifaríka röð frétta og fréttaskýringa um svifryk, áhrif svifryksmengunar og hvað sé helst til ráða til að sporna við henni.

Kristín Sigurðardóttir, Fréttastofu Útvarpsins, fyrir röð frétta um gjaldtöku bankanna vegna svokallaðs "fit- kostnaðar", sem hafði mikil áhrif í þjóðfélaginu.

 

Rannsóknarblaðamennska ársins 2007

Ritstjórn DV, Sigurjón M. Egilsson, Valur Grettisson, Anna Kristine Magnúsdóttir, Sigtryggur Ari Jóhannsson, Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, Valgeir Örn Ragnarsson, Jakobína Davíðsdóttir og Kristján Hrafn Guðmundsson, fyrir umfjöllun sína um meðferð barna og unglinga í Breiðavík og á öðrum vistheimilum ríkisins.

Þóra Tómasdóttir og Sigmar Guðmundsson, Sjónvarpinu, fyrir umfjöllun sína í Kastljósi um meðferð og örlög drengja sem vistaðir voru á uppeldisheimilinu í Breiðavík.

Svavar Hávarðsson, Fréttablaðinu, fyrir víðtæk fréttaskrif og góða eftirfylgd um sjóöryggi á siglingaleiðum við Suður- og Suðvesturland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×