Handbolti

Botnlið ÍBV vann Stjörnuna með sigurmarki á lokasekúndunni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sigurður Bragason skoraði átta mörk.
Sigurður Bragason skoraði átta mörk.

Botnlið ÍBV gerði sér lítið fyrir og vann Stjörnuna í N1 deild karla í dag 34-33. Leikurinn var í Vestmannaeyjum og skoraði Sergiv Trotsenko sigurmarkið í leiknum á lokasekúndunni.

ÍBV var 17-15 yfir í hálfleik. Jafnt var á öllum tölum undir lok leiksins en Stjörnunni tókst þó aldrei að komast yfir. Patrekur Jóhannesson jafnaði í 33-33 en ÍBV tókst að tryggja sér sigurinn.

Trotsenko átti stórleik fyrir ÍBV og skoraði fimmtán mörk. Sigurður Bragason skoraði átta. Þetta var aðeins annar sigur ÍBV í deildinni í vetur en liðið náði að fylgja eftir góðri frammistöðu gegn Haukum um síðustu helgi.

Ólafur Víðir Ólafsson var markahæstur í Stjörnunni með níu mörk. Garðbæingar voru langt frá sínu besta og markvarsla liðsins komst aldrei í gang.

Stjarnan er með 21 stig í fjórða sæti deildarinnar og fjórum stigum á eftir Haukum sem eru á toppnum en hafa leikið leik minna. ÍBV er enn í botnsætinu, hefur fjögur stig og er þremur stigum á eftir Aftureldingu sem er sæti ofar og einnig í fallsæti. Akureyri er síðan þremur stigum á undan Aftureldingu.

HK og Akureyri eigast við í Digranesi klukkan 16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×