Innlent

Persónuafsláttur hækkar um 7 þúsund krónur

Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynntu viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í dag.
Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynntu viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í dag. Mynd/ Stöð 2

Persónuafsláttur hækkar um 7 þúsund krónur á næstu þremur árum, umfram almenna verðuppfærslu. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð og tekjuskattur fyrirtækja verður lækkaður í 15%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viljayfirlýsingu sem ríkisstjórnin hefur samþykkt vegna kjarasamninga sem til stendur að undirrita í kvöld.

Persónuafsláttur hækkar um 7 þúsund krónur á næstu þremur árum, umfram almenna verðuppfærslu. Árið 2009 hækkar hann um 2.000 krónur, árið 2010 um 2.000 krónur og árið 2011 um 3.000 krónur.

Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð úr 100 þúsund krónum á mánuði fyrir einstaklinga í 120 þúsund krónur árið 2008 og 150 þúsund krónur árið 2009. Sambærilegar fjárhæðir fyrir hjón hækka úr 200 þúsund krónum í 240 þúsund krónur árið 2008 og 300 þúsund árið 2009. Tekjuskerðingarhlutföll vegna annars og þriðja barns verði jafnframt lækkuð um 1% árið 2008.

Þá mun ríkisstjórnin mun beita sér fyrir frekari aðgerðum til lækkunar vöruverðs, einkum á matvælum. Sérstaklega verða skoðaðar frekari lækkanir á tollum og vörugjöldum.

Loks verður tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 18% í 15% frá og með tekjuárinu 2008 sem kemur til framkvæmda álagningarárið 2009.

Þá mun ríkisstjórnin vinna að stefnumótun í húsnæðismálum þar sem skyldur hins opinbera verða skilgreindar og verka- og kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga endurskoðuð með jafnræði milli búsetuforma og einstaklingsbundinn stuðning að leiðarljósi. Jafnframt mun ríkisstjórnin taka til endurskoðunar fyrirkomulag vaxtabóta og húsaleigubóta í samráði við aðila vinnumarkaðarins o.fl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×