Innlent

Sagan gekk ekki upp hjá ölvuðum ökumanni

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Hvorki meira né minna en átta ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna um helgina og fjórir fyrir ölvunarakstur.

Einn þeirra sem voru undir áfengisáhrifum hafði ekið bifreið sinni útaf veginum skammt frá Aratungu og fest bifreið sína. Fram kemur í dagbók lögreglunnar að hann hafi leitað ásjár hjá vegfaranda um að draga bifreiðina upp á veg en sá var ekki tilbúin til þess þegar hann fann vínþef af manninum og hringdi í lögreglu.

Þegar lögregla kom á staðinn gaf ökumaðurinn þá skýringu að félagi hans hefði ekið bifreiðinni en hann farið af vettvangi. Hann gaf upp nafn félaga síns og þegar átti að finna hann kom í ljós að hann var staddur í flugvél á leið frá Danmörku til Íslands svo ekki gekk það upp.

Maðurinn var því handtekinn og við yfirheyrslu næsta dag viðurkenndi hann að hafa ekið bifreiðinni undir áfengisáhrifum og fyrsta frásögn hans verið uppspuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×