Innlent

Skjár einn sækir líka í sig veðrið

Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Sigríður Margrét Oddsdóttir.

Skjá miðlar, móðurfélag Skjás eins, gera athugasemdir við viðtal sem birtist í Fréttablaðinu í morgun við Pálma Guðmundsson, sjónvarpsstjóra Stöðvar 2. Í viðtalinu er því haldið fram að í nýrri áhorfsskönnun Capacent Gallup hafi Skjár einn mælst með minna áhorf en áður. Þetta er alrangt að sögn Skjá miðla.

„Þegar meðaláhorf á sjónvarpsstöðvar er skoðað kemur skýrt fram að SkjárEinn eykur áhorf sitt um 34% frá könnun síðasta árs, eins og fram kom á kynningu Capacent Gallup sl. fimmtudag," segir í tilkynningu frá félaginu. „Það ber vissulega að taka fram að allar sjónvarpsstöðvarnar auka áhorf sitt frá fyrri mælingum, enda sýnir ný aðferð við mælingar á ljósvakanotkun að Íslendingar horfa meira á sjónvarp en áður hefur mælst."

„Ég velti því fyrir mér hvort það vaki fyrir Stöð 2 að blekkja bæði auglýsendur og fjárfesta með tali af þessu tagi," segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Skjá miðla ehf. „Tölurnar tala sínu máli og við hvetjum alla til að kynna sér niðurstöður áhorfskönnunarinnar þar sem sterk staða okkar kemur skýrt fram. SkjárEinn er sú sjónvarpsstöð sem skilar auglýsendum mestum ávinningi og við treystum á að auglýsendur sjái í gegnum svona blekkingar," segir Sigríður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×