Innlent

Úrslitatilraun til þess að finna loðnu við landið

Úrslitatilraun til að finna meira af loðnu við landið á þessari vertíð hófst í morgun með tveimur hafrannsóknaskipum og þremur loðnuskipum. Endanleg niðurstaða gæti legið fyrir á miðvikudag.

Eitt hafrannsóknaskip leitar suðaustur af landinu, annað út af vesturlandi og norður fyrir og þrjú loðnuskip leita fyrir norðan land, allt á svæðum sem loðna gæti farið um.

Það vakti vonir sjómanna og útvegsmanna þegar loðna fór allt í einu að veiðast uppi á grunninu rétt austan við Höfn í Hornafirði í gær en það virðast því miður vera falsvonir því Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur um borð í hafrannsóknaskipi á svæðinu segir að þetta sé dreifð loðna úr þeim torfum sem áður hafi mælst. Þetta gefi ekkert tilefni til að auka við upphafskvóta íslensku skipanna, sem er aðeins 120 þúsund tonn fyrir vertíðina.

Til samanburðar má geta þess að meðalveiði á vetrarvertíðum undanfarin 10 til 15 ár hefur verið um og yfir 700 þúsund tonn eða sex- til sjöfalt meiri en kvótinn er núna. Það eru því horfur á að stofninn sé í enn verra ástandi en í fyrra og hitteðfyrra þegar hann þótti mjög lélegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×