Innlent

Langt á eftir nágrannaþjóðum í þjónustu við geðfatlaða

Kristófer Þorleifsson, formaður Geðlæknafélags Íslands.
Kristófer Þorleifsson, formaður Geðlæknafélags Íslands.

Formaður Geðlæknafélags Íslands segir Íslendinga langt á eftir nágrannaþjóðunum í þjónustu við geðfatlaða og kallar eftir því að yfirvöld fari að sinna þessum hópi í stað þess að minnka við það þjónustuna eins og nú sér gert.

Stjórn Geðlæknafélagsins sendi í morgun frá sér ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til að hætta við að loka starfsendurhæfingu Bergiðjunnar við Kleppspítala og sömuleiðis að breyta deild 28 í Hátúni 10 úr sólarhringsdeild í dagdeild.

Kristófer Þorleifsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, bendir á að nú þegar sé búið að loka Bergiðjunni en þar vann um tugur fólks í starfsendurhæfingu við hannyrðir og smíðar. Hann gagnrýnir að ekki hafi verið gerðar ráðstafanir varðandi hópinn áður en tekin var ákvörðun um að loka Bergiðjunni.

Kristófer segir það enn meira áhyggjuerfni að ætlunin sé að breyta deild 28 í Hátúni úr sólarhringsdeild í dagdeild. Hann segir að með breytingunni sé verið að spara laun eins ófaglærðs manns á næturvakt en með henni með verði deildin ekki jafngóð endurhæfingardeild og nú. Þá snerti breytingin 60-80 manns sem búa í blokkunum í Hátúni og tengjast endurhæfingunni.

Formaður Geðlæknafélagsins segir enn fremur að það sem af er öldinni hafi mjög verið þrengt að geðsviði Landspítalans og bráðaplássum og endurhæfingar- og langtímarúmumhafi fækkað um á annað hundrað. Geðlæknafélagið gagnrýni að ráðist sé í lokanir án þess að nokkur önnur úrræði komi í staðinn.

Kristófer segir Íslendinga langt á eftir nágrönnum sínum varðandi endurhæfingu geðfatlaðra. „Það þarf að samtvinna betur félagsleg úrræði og heilbrigðisþjónustu," segir Kristófer. Hann bendir á að geðdeildin sé komin í svipaðan vanda og ýmsar deildir á Landspítalanum þar sem ekki er hægt að taka á móti fólki vegna þess að aldraðir eru í sjúkrarúmunum þar sem þeir fái ekki inni á hjúkrunarheimilum. „Fólk bíður eftir því að komast í endurhæfingu," segir Kristófer og á þar meðal annars við nokkra tugi manna á bráðadeild.

Aðspurður segir Kristófer að geðlæknar á Landspítalanum hafi lýst vanþóknun sinni með þróun mála en sviðsstjórum sé sagt að spara vegna framúrkeyrslu. Kristófer bendir á að geðdeildinni hafi verið falið að sinna nýjum verkefnum, eins og að koma á fót átröskunarteymi og reka nokkurs konar sambýli í húsum á lóð Kleppsspítala, en fjármunir hafi ekki fylgt því.

Kristófer segir um viðvarandi vanda að ræða. „Við erum langt á eftir nágrannaþjóðum okkar í samfélagsþjónustu við langveika og við eigum fara að þjónusta þetta fólk í stað þess að minnka við það þjónustuna," segir Kristófer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×