Innlent

Segjast ekki tengjast heimasíðu til höfuðs Steinþóri

Andri Ólafsson skrifar
Steinþór Skúlason
Steinþór Skúlason

Starfsfólk sölu og markaðsdeildar Sláturfélags Suðurlands segist í yfirlýsingu ekki standa fyrir heimasíðunni slaturfelagid.com sem sett hefur verið á laggirnar til höfuðs forstóra SS, Steinþóri Skúlasyni.

Vísir sagði frá síðunni fyrr í dag og ræddi við Jónas Jónsson, stjórnarformann SS vegna málsins. Hann sagði að fyrrverandi starfsmenn, sem nýlega hefðu sagt upp störfum, væru að reyna að skemma fyrir SS og koma höggi á Steinþór Skúlason. Ánægja sé með störf Steinþórs á meðal starfsmanna SS.

Á slaturfelagid.com er því hins vegar haldið fram að mikillar óánægju gæti á meðal margra starfsmanna Sláturfélags Suðurlands með Steinþór forstjóra.

Á heimasíðunni er meðal annars vitnað til könnunar sem VR gerði á viðhorfum starfsmanna til fyrirtækisins. Í henni kom fram að starfsandinn í SS er sá versti af 137 fyrirtækjum sem skoðuðu voru. Starfsmenn gáfu starfsandanum að meðaltali einkunnina 6 af 100 mögulegum.

Í sömu könnun fékk trúverðugleiki stjórnenda SS einkunnina 7 af 100 mögulegum.

Í yfirlýsingu sem Vísi barst frá starfsfólki sölu og markaðsdeildar SS í dag er engum orðum vikið að Steinþóri forstjóra né slæmum starfsanda.

En öllum tengslum við heimasíðuna slaturfelagid.com er hins vegar vísað á bug.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×