Innlent

Aflaverðmæti eykst um tæp sjö prósent milli ára

Aflaverðmæti íslenskra skipa á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs nam rúmum 75 milljörðum samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Það er fimm milljörðum króna meira aflaverðmæti en á sama tímabili árið á undan og nemur aukningin því tæpum sjö prósentum. Aflaverðmæti í nóvember var sex milljarðar sem er svipað og í nóvember 2006.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að aflaverðmæti botnfisks var í lok nóvember orðið tæplega 57 milljarðar króna, þar af var verðmæti þorskafla um 27 milljarðar. Jókst verðmætið um tæp ellefu prósent frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam 13,5 milljörðum, sem er rúmlega fjórðungsaukning milli ára. Hins vegar dróst verðmæti karfaafla og ufsaafla saman á milli ára.

Aflaverðmæti uppsjávarafla jókst um tæp fimmtán prósent á milli ára og nam tæpum 14 milljörðum króna. Munar þar mestu um verðmæti loðnu sem nam 4,2 milljörðum á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs samanborið við 2,2 milljarða árið á undan. Verðmæti síldarafla var 4,9 milljarðar og dróst saman um tæp fimmtán prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×