Innlent

Íslensku feðgarnir biðu daglangt eftir túlki

Íslensku feðgarnir sem réðust á 49 ára gamlan Dana í bænum Langebæk á Sjálandi síðastliðinn sunnudag þurftu að bíða megnið af mánudeginum í vörslu lögreglunnar meðan leitað var að túlki.

Samkvæmt upplýsingum frá Tom Buhl er stjórnar rannsókn málsins fyrir lögregluna á Suður-Sjálandi var árásin töluvert blásin út í dönskum fjölmiðlum. „Sem dæmi get ég nefnt að fjölmiðlar tala um að feðgarnir hafi notað járnrör en í raun var um örþunnan rafmæli að ræða," segir Buhl sem bætir því við að meiðsli Danans séu minni háttar, í raun aðeins um marbletti að ræða.

Fyrir utan vandræðin með að útvega feðgunum túlk áður en skýrsla var tekin af þeim hefur rannsókn málsins gengið hratt fyrir sig. Buhl segir að feðgarnir hafi samþykkt að lögmaður sá sem lögreglan útvegaði þeim muni einn verða viðstaddur þegar réttað verður í máli þeirra. „Þeir þurfa því ekki að leggja á sig aukferð til Danmerkur sökum þessa," segir hann.

Eins og fram kom í fréttum var ákveðið að krefjast ekki gæsluvarðhalds yfir feðgunum. Buhl veit ekki hvort þeir séu enn staddir í Danmörku eða farnir heim til Íslands aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×