Innlent

Heimdellingar fagna lækkun á fyrirtækjaskatti

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem fyrirhugaðri skattalækkun á fyrirtæki úr 18% í 15% er fagnað.

Í yfirlýsingunni segir:

Þetta heillaspor undirstrikar eitt af grundvallargildum Sjálfstæðisflokksins, að fjármunum sé best borgið í höndum þeirra sem afla þeirra, en ekki í hirslum hins opinbera. Ákvörðunin gerir Ísland enn samkeppnishæfara á alþjóðavísu, og álitlegan kost fyrir erlend fyrirtæki. Félagið telur einnig að til lengri tíma muni skattalækkunin geta af sér tekjuaukningu fyrir ríkissjóð og þjóðina alla. Útlit er fyrir að tímasetning skattalækkanana sé mjög góð, þegar litið er til efnahagsástands innanlands og á alþjóðavísu í náinni framtíð.

Einnig vill Heimdallur fagna því að stimpilgjald verði afnumið hjá þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign. Félagið vill samt sem áður hvetja til þess að gjaldið verði afnumið að fullu við fyrsta tækifæri. Stimpilgjald er ósanngjarn skattur sem leggst á lántakendur og getur oft numið háum fjárhæðum hjá fasteignakaupendum. Þessi niðurfelling er skref í rétta átt og mun vafalaust koma almenningi í landinu til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×