Innlent

Framhaldsskóli í Mosfellsbæ á næsta ári

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, undirrituðu í dag samkomulag um stofnun og byggingu framhaldsskóla í Mosfellsbæ.

Fram kemur í tilkynningu frá bænum að skólinn muni rísa í miðbæ Mosfellsbæjar og stefnt er að því að skólastarf hefjist þar haustið 2009. Skólinn verður fyrsti framhaldsskóli Mosfellsbæjar og fyrsti framhaldsskóli sem er stofnaður á vegum opinberra aðila á höfuðborgarsvæðinu frá því að Borgarholtsskóli hóf störf árið 1996.

Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir allt að 4.000 fermetra byggingu sem rúmar 400-500 nemendur. Möguleiki verður á að stækka skólann og við hönnun hússins og undirbúning skólastarfs verður lögð áhersla á sveigjanleika og möguleika til nýbreytni.

Gert er ráð fyrir að skólameistari hefji störf í haust og mun hann ásamt öðrum ráðgjöfum vinna að undirbúningi, stofnun og uppbyggingu skólans í samvinnu við menntamálaráðuneyti og Mosfellsbæ. Í samningnum er gert ráð fyrir að Mosfellsbær muni hafa mikil áhrif á uppbyggingu og stefnu skólans alveg frá byrjun og sjá um byggingu hans fyrir hönd ráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×