Innlent

Milljónatjón á hringveginum í Borgarfirði

Hringvegurinn er enn lokaður við Svignaskarð í Borgarfirði eftir að vatnsagi rauf hann í fyrrinótt. Tjónið nemur milljónum króna.

Þar stíflaðist ræsi með fyrrgreindum afleiðingum og ætlar Vegagerðin að setja mun afkastameira ræsi í staðinn eða allt að þrefalt stærra. Auk þess þarf að flytja mikið fyllingarefni að því talið er að 200 til 300 rúmmetrar af fyllingarefni hafi skolast burtu.

Talsvert langt er í næstu malarnámu auk þess sem þar er aurbleyta og tefur það fyrir. Ef allt gengur hins vegar eftir áætlun ætti bráðabirgðaviðgerð að ljúka síðdegis. Þangað til þurfa ökumenn að aka Borgarfjarðarbraut sem lengir norðurleiðina um 20 kílómetra.

Víða á Vesturlandi eru djúpar holur í slitlag vega vegna vatnsaga og varar Vegagerðin ökumenn við þvi. Og vegna hættu á slitlagsskemmdum eru þungatakmarkanir á mörgum leiðum um allt land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×