Innlent

Býst við breytingum á Kúbu eftir brotthvarf Castros

Pétur Guðjónsson sagði sögu sína í Kastljósi í fyrra. Þessi mynd af honum er birt með góðfúslegu leyfi Ríkisútvarpsins.
Pétur Guðjónsson sagði sögu sína í Kastljósi í fyrra. Þessi mynd af honum er birt með góðfúslegu leyfi Ríkisútvarpsins.

Pétur Guðjónsson, einn af forsvarsmönnum húmanista á Íslandi, telur að breytingar verði á Kúbu í kjölfar brotthvarfs Fidels Castro úr forsetaembætti. Hann segir Kúbu hafa verið lögregluríki undir stjórn leiðtogans aldna.

Fram kom í fréttum í dag að Castro hygðist ekki sitja áfram sem forseti en hann hefur verið við völd á Kúbu allt frá árinu 1959. Pétur Guðjónsson er sá Íslendingur sem segja má að komist hafi í hvað best kynni við forsetann aldna og hefur meðal annars skrifast á við hann.

Pétur hitti Castro fyrst á blaðamannafundi í Chile í byrjun desember árið 1971. „Ég hafði lokið háskólanámi í Bandaríkjunum og vildi nema frekar og fór því til Chile þar sem fyrsti lýðræðislega kjörni sósíalistinn, Allende, var við völd. Kallin hann Castro var þarna um haust í nokkra mánuði og var búinn að pólasera landið, það er fólk var annars vegar með honum eða á móti,“ segir Pétur.

Reifst við Castro á blaðamannafundi

Pétur starfaði einnig á þessum tíma sem blaðamaður í aukastarfi, meðal annars fyrir Boston Globe, Miami Herald og kanadíska ríkissjónvarpið. „Ég fór á blaðamannafund sem Castro hélt sem var einn sá fyrsti eftir að hann tók við völdum árið 1959. Ég bar þarna upp spurningu og þetta leiddi til þess að við spurningar gengu á milli okkar og hann varð brjálaður út þennan evrópska menntamann," segir Pétur og bætir við hann hafi sakað Castro um að vera platbyltingarmann sem nennti ekki að tala við neinn.

„Þetta endaði með því að hann bauð mér að koma til Kúbu í febrúar árið 1972 og þar dvaldi ég í sex vikur og kynnti mér mannlífið það og skrifaði um það," segir Pétur. Hann segir lærdóminn af ferðinni hafa verið þann ekki sé hægt að breyta þjóðfélagi nema breyta fólkinu líka.

Fékk þakkarbréf frá Castro

Aðspurður segir Pétur að hann hafi af og til sent Castro bréf og meðal annars falið íslenskum ferðamönnum sem farið hafa til Kúbu að koma þeim til skila. Síðast fyrir nokkrum árum fór kunningi Péturs með bæði bréf og bók sem Pétur hefur skrifað, sem nefnist Leitað að Guði, til Castros og segir Pétur að kunninginn hafi komið til baka með þakkarbréf frá Castro. „Ég veit hins vegar ekki hvort hann hefur lesið bókina," segir Pétur.

Pétur segir stjórnarfarið í tíð Castros hafa haft sína kosti og galla. „Menntun og heilbrigðisþjónusta er mjög góð en svo er óttaleg stéttskipting þar sem átta prósent þjóðarinnar, sem skráð eru í Kommúnistaflokkinn, hafa það betra en almenningur. Fyrir meirihluta almennings er þetta því ekki góð tilvera," segir Pétur og segir Kúbu í raun vera lögregluríki þar sem Castro hafi haft afskipti af mjög mörgum hlutum.

Fidel hefur meiri karisma en Raúl

Aðspurður hvort hann telji að það verði breytingar á Kúbu í kjölfar brotthvarfs Castros af valdastóli segir Pétur að hann telji að svo verði. Kúbverjar séu kraftmikil þjóð og eigi athyglisverða sögu. „Það er spurningin hvort þeir muni koma á fót óheftum kapítalisma eða halda í það góða sem þeir hafa byggt upp eins og menntun og heilbrigðisþjónustu," segir Pétur.

Hann segir enn fremur að enginn sýnilegur leiðtogi sé til að taka við af Castro. „Bróðir hans, Raúl, er fjörgamall og hefur ekki sama karisma og Castro," segir Pétur og óskar kúbversku þjóðinni alls hins besta.

Sjálfur er Pétur ekki á leiðinni til Kúbu á næstunni en hann vinnur þó mikið í nágrenninu, á Haítí þar sem hann vinnur að stóru mennta- og þróunarverkefni í samtarfi við þarlenda íbúa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×