Innlent

Lægstu laun duga ekki til lágmarksframfærslu

Sótt var að ríkisstjórninni á Alþingi í dag vegna framlags hennar til kjarasamninga og efnahagsmála.
Sótt var að ríkisstjórninni á Alþingi í dag vegna framlags hennar til kjarasamninga og efnahagsmála. MYND/GVA

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna gagnrýndu í dag að lægstu laun í landinu dygðu ekki enn til lágmarksframfærslu þrátt fyrir nýja kjarasamninga. Utanríkisráðherra tók undir með þeim en sagði réttlæti ekki komið fram í einu skrefi.

Geir H. Haarde forsætisráðherra kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar í dag og kynnti aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum ASÍ og SA sem undirritaðir voru í fyrradag. Sagði hann samningana ánægjuleg tíðindi og að þeir væru mjög ábyrgðir. Hann benti á að samningarnir kæmu mismunandi niður í atvinnulífinu eftir atvinnugreinum og fyrirtækjum. Geir fór einnig yfir efni viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og sagði mikilvægt að skapa hér á landi skilyrði fyrir vaxtalækkun.

Fastir í vítahring lágs tímakaups og langs vinnutíma

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, gagnrýndi að samið hefði verið um 137 þúsund króna lágmarksmánaðarlaun, jafnvirði um tíu þúsund danskra króna. Slík upphæð þætti eflaust lítil í Danmörku en þó væri verðlag töluvert hærra hér á landi. Sagði Steingrímur að mönnum hefði gengið illa reikna framfærslukostnað einstaklings niður fyrir 150 og sagði Íslendinga fasta í vítahring lágs tímakaups og langs vinnutíma. Þá sagði hann hlut ríkisstjórnarinnar rýran, launamenn þyrftu að bíða eftir sínu en fyrirtækin fengju sitt strax.

Samningar sem menn hafði dreymt um í áratugi

Guðni Ágústssson, formaður Framsóknarflokksins, fagnaði því að samningar hefðu náðst en um væri að ræða samninga sem menn hefði dreymt um í marga áratugi. Til stæði að bæta kjör þeirra sem lægst hafa launin.

Sagði hann hins vegar stóra atriðið nú að lækka verðbólgu og vexti en Seðlabankinn hefði í síðustu viku barið höfðinu við steininn og haldið stýrivöxtum óbreyttum. Þá sagði Guðni efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á floti líkt og íslensku krónuna og spurði forsætisráðherra hvernig mæta ætti gríðarlegum hækkunum á matvælaverði á næstunni vegna hækkunar á áburðar- og fóðurverði. Þá benti Guðni á að lægstu laun dygðu ekki til framfærslu.

Guðni þakkaði aðilum vinnumarkaðarins fyrir að ljúka samningum en sagðist ekki myndu sitja á friðarstóli gagnvart ríkisstjórinni þar sem hún hefði ekki tekist á við verðbólguna sem væri þjófur í veskjum landsmanna.

Hefðu frekar átt að fara að tillögu ASÍ

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, tók undir með Steingrími og Guðna að lægstu taxtar og lægstu bætur almannatrygginga dygðu ekki til framfærslu og fólki væri ekki komið upp fyrir fátækramörk með nýjum samningum. Þá gagnrýndi hann ríkisstjórnina fyrir að hunsa tillögu ASÍ um sérstakan persónuafslátt fyrir lágtekjufólk. Frjálsyndir hefðu einnig lagt þá tillögu fram og hún væri mun betri en sú aðferð sem ríkisstjórnin hygðist ráðast í í skattamálum.

Meiri jöfnuður i samningum en menn hafi séð í langan tíma

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði samningana hins vegar fela í sér meiri jöfnuð en menn hefðu séð í langan tíma og gagnrýndi hún Steingrím J. Sigfússon fyrir neikvæðni. Ingibjörg sagði tillögum ASÍ um sérstakan persónuafslátt hafa verið hafnað þar sem ríkisstjórnin hafi talið að ekki yrði sátt um þær í samfélaginu.

Hins vegar hefði verið ákveðið að hækka skattleysismörk um 20 prósent á næstu tveimur árum og verið væri að gera mest fyrir þá sem lægst hefðu launin. Þá sagði hún ekki lítið að verið væri að hækka skerðingarmörk barnabóta 100 þúsund í 150 þúsund. Verið væri að gera sáttmála um efnahagslegt jafnvægi og félagslegt réttlæti.

Ingibjörg Sólrún viðurkenndi að laun væru enn fyrir neðan viðmiðunarmörk framfærslu en sagði að réttlætinu væri ekki komið á í einu skrefi. Ríkisstjórnin hefði hins vegar gert gríðarlega mikið á fyrstu níu mánuðum sínum, ekki síst gagnvart þeim sem lægst hafa launin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×