Innlent

Hrafn óttast að flokkseigendafélagið ræni nú öllu lauslegu á Kúbu

Andri Ólafsson skrifar
Hrafn Gunnlaugsson
Hrafn Gunnlaugsson

"Kúba hefur verið lögregluríki og Fidel orðið æ meiri harðstjóri með árunum," segir Hrafn Gunnlaugsson leikstjóri. Hrafn hefur dvalið á Kúbu löngum stundum og á þar vini og vandamenn. Þá er barnsmóðir Hrafns og fjölskylda hennar frá Kúbu.

"Stéttaskipting er mikil, þau rúmu 8% sem eru í kommúnistaflokknum, búa við forréttindi, en almenningur lifir við skort á flestum sviðum. Í seinni tíð hafa nær allir bestu læknar landsins verið fluttir til Venesúela og annara Suður-Ameríkuríkja í áróðurskini, svo heilbrigðiskerfið heima fyrir er í rúst. Þjóðfélagið er að hruni komið innan frá," segir Hrafn.

Hrafn óttast að flokkseigendafélagið ræni nú öllu lauslegu eins og gerðist í Rússlandi og öðrum kommúnistaríkjum, og úr verði mafía sem byggi á hinni hötuðu leynilögreglu Fidels.

"Kúba hefur verið land óttans og niðurlægingarinnar, en sjálfir eru Kúbverjar glatt og gestrisið fólk. Kúba sem land er einn yndislegasti staður á jörðu. Ég á marga góða vini á Kúbu og þeirra vegna vona ég að þetta rætist ekki, og að þjóðin finni sér hægfara og farsæla leið til aukins lýðræðis."

Hrafn segir að versta staðan sem upp gæti komið sé blóðug átök um hver eigi í raun og rétti hús og fasteignir á Kúbu sem nú eru allar á hendi stjórnarinnar.

"En í ýmsum löndum svo sem í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó og á Kanaríeyjum býr svo fjöldi útlægra Kúbana sem býður þess eins að komast heim og krefjast eigna sinna. Hvernig brugðist verður við þeim kröfum getur ráðið miklu um hvort til blóðugra átaka kemur," segir Hrafn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×