Innlent

Vilja láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna

MYND/GVA

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, og ellefu aðrir þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

Fram kemur í tilkynningu að tillagan geri ráð fyrir að samgönguráðherra verði falið að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar annars vegar og svokölluðu léttlestakerfi innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Í tillögunni segir ennfremur að kannaðir skuli kostir þessa samgöngumáta og gallar, sem og hugsanlegar leiðir. Sjónum á einkum að beina að kostnaði og ávinningi samfélagsins og efnahagslegum, umhverfislegum og skipulagslegum áhrifum.

Gert er ráð fyrir að leitað verði til sérfræðinga innan lands og utan og að niðurstöður athugunarinnar liggi fyrir í árslok 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×