Innlent

Sjálfsagt að hefja umræðu um gjaldmiðlamál

MYND/Pjetur

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að eina leiðin til að taka upp evru sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu og myntbandalaginu. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn flokksbróður hans, Karls V. Matthíassonar.

Karl innti Björgvin eftir viðbrögðum við orðum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Baugs, um helgina þess efnis að íslensk stjórnvöld ættu að íhuga það að sækja um aðild að ESB og það hefði góð áhrif á efnahagslífið.

Björgvin sagði orð Jóns Ásgeirs athyglisverð og benti á að tvennt ylli erfiðri stöðu fjármálafyrirtækja. Annars vegar væri það alþjóðleg fjármálakreppa og hins vegar svokallaður hlutfallsvandi, en þar væri átt við að stærð fjármálafyrirtækja væri hlutfallslega orðin of mikil fyrir gjaldmiðilinn og hagkerfið.

Björgvin sagði ljóst eftir Viðskiptaþing í síðustu viku að einhliða upptaka evru væri ekki möguleiki í stöðunni og því væri að hans mati eina leiðin að sækja um aðild að ESB og myntbandalaginu. Áður en að því kæmi þyrfti að koma á stöðugleika í efnahagslífinu en sjálfsagt væri að hefja umræðuna þannig að fyrir lægi innan nokkurra missera eða ára hvað væri rétt að gera fyrir hagsmuni Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×