Innlent

Kannar hvort börn séu látin vinna of mikið

MYND/GVA
Jóhanna Sigurðardóttir félags og tryggingamálaráðherra hyggst láta skoða það hvort börn sem vinna verlsunarstörf séu látin bera óeðlilegt mikla ábyrgð og vinni meira en reglur kveða á um. Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins.

Siv benti á að fjöldi barna ynni í verslunum og stórmörkuðum en ákveðnar reglur giltu um ábyrgð þeirra og vinnutíma. Þannig mættu 13 og 14 ára börn vinna létt verslunarstörf og aðeins vinna tvær stundir á skóladegi og samtals 12 stundir á viku. Brögð væru að því að börn ynnu meira en þetta og spurði hún ráðherra hvort kanna ætti þessi mál. Siv sagðist skilja að atvinnurekendur ættu erfitt með að manna stöður nú um stundir en gæta yrði þess að börn ynnu ekki óeðlilega mikið.

Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra sagðist sammála því að gæta þyrfti að því að börn bæru ekki óeðlilega ábyrgð í vinnu og að farið væri að þeim tíma og viðmiðunum sem giltu um vinnu barna. Þakkaði hún Siv fyrir að vekja athygli á þessu og sagðist myndu skoða þetta sérstaklega.

Siv fagnaði orðum ráðherra. Hún vísaði jafnframt til talna sem birtar voru fyrir tveimur árum um að 19 prósent 12-15 ára barna væru á vinnumarkaði. Hún teldi að þessar tölur væru mun hærri nú af því að það væri skortur á fólki. Það væri skiljanlegt að börn vildu vinna en gæta yrði að réttindum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×