Innlent

Lest talin óraunhæf fyrir sex árum

Tólf þingmenn úr öllum flokkum undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar lögðu í dag fram á Alþingi tillögu um að hagkvæmni lestarsamgangna yrði könnuð, bæði innan höfuðborgarsvæðis sem og milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Hagkvæmniathugun sem Orkuveita Reykjavíkur lét gera á þessu fyrir sex árum sýndi að slík lest myndi kosta 33 milljarða króna og verða rekin með miklu tapi.

Þegar umræða blossaði síðast upp um lest milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur fyrir átta árum lét Skjár einn gera þessar myndir af því hvernig hún gæti litið út. Þingmennirnir tólf sem flytja tillöguna vilja að samgönguráðherra láti einnig kanna hagkvæmni léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins og sjónum verði ekki aðeins beint að efnahagslegum ávinningi heldur einnig umhverfislegum og skipulagslegum, og að niðurstaða verði fengin fyrir árslok. Niðurstöður hagkvæmniathugunar sem Orkuveita Reykjavíkur lét gera um lest milli Reykjavíkur og Keflavíkur voru birtar fyrir sex árum. Fram kom að, jafnvel þótt stofnkostnaður upp á 33 milljarða króna yrði ekki reiknaður með, yrði 250 milljóna króna tap á lestinni á hverju ári. Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi stjórnarmaður Orkuveitunnar, sagði þá að alið hefði verið á óraunsæjum væntingum um lestarsamgöngur á Íslandi. Miklum fjármunum hefði verið eytt í að reikna út það sem allir vissu; að framkvæmdin væri óhagkvæm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×