Innlent

Milljarðatap vofir yfir ef loðnuveiðar verða stöðvaðar

Allt bendir til þess að loðnuveiðar verði stöðvaðar í dag, til þess að ganga ekki of nærri stofninum, sem virðist vera í mikilli lægð. Stöðvun þýddi milljarða tekjutap fyrir útvegsfyrirtæki, sjómenn og mörg byggðarlög.

Hafrannsóknaskipin finna engar nýjar göngur og síðar í dag verður tekin endanleg ákvörðun um áframhaldið. Íslensku loðnuskipin eru aðeins búin að veiða um 30 þúsund tonn frá áramótum en í venjulegu árferði veiðast um það bil 700 þúsund tonn á vertíðinni.

Verðmæti af þessari vertíð yrði þá ekki nema rúmur milljarður króna, eða einn tíundi af síðustu vertíð sem þó var léleg. Þetta yrði efnahagslegt áfall fyrir útvegsfyrirtæki, sjómenn og byggðarlög sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á loðnuveiðum og vinnslu.

Verði veiðin stöðvuð núna verður leit haldið áfram og ætla útvegsmenn líka að leggja til skip í því skyni enda eru þeir ekki úrkula vonar um að loðnan birtist þegar minnst varir.

Annars var góð veiði austan við Ingólfshöfða í nótt en það er loðna sem Hafrannsóknastonfun er þegar búin að mæla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×