Innlent

Efast um að lestarsamgöngur séu raunhæfur kostur

Borgarstjórinn í Reykjavík, Ólafur F. Magnússon, segir að gífurlega dýrt yrði að koma á fót lestarsamgöngum og efast um að þær séu raunhæfur kostur. Slíkar hugmyndir hafi enda fengið hraklega meðferð í borgarstjórn fyrir nokkrum árum.

Tillaga hefur verið lögð fram á Alþingi um að kanna hagkvæmni lestarsamgangna, ekki aðeins milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur heldur einnig léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins. Í umræðum í borgarstjórn Reykjavíkur síðdegis í gær um framtíð Vatnsmýrar bar lestir á góma. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, fagnaði því að vilji væri til þess að kanna þessar hugmyndir.

Borgarstjórinn hafði hins vegar litla trú á lestarhugmyndinni. Hann sagði að það kæmi sér verulega á óvart ef tillögur um lestarsamgöngur, sem fengið hafi hraklega meðferð í umræðum fyrir nokkrum árum, fengju betri meðferð nú. Þetta væri gífurlega dýr kostur þótt hugmyndin væri ákaflega áhugaverð og skemmtileg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×