Innlent

Segir sparnaðaraðgerðir ekki stefna sjúklingum í voða

MYND/E.Ól

Sviðsstjóri geðlækninga á Landspítalanum vísar fullyrðingum geðlækna á bug að sparnaðaraðgerðir á spítalanum muni stefna sjúklingum í voða. Hann segir um nauðsynlegar aðgerðir að ræða.

Samkvæmt fyrirhuguðum sparnaðaraðgerðum á geðsviði Landspítalans Háskólasjúkrahúss á loka starfsendurhæfingu Bergiðjunnar fyrir geðfatlaða við Kleppsspítala. Þá verður deild 28 í Hátúni 10 breytt úr sólarhringsdeild í dagdeild.

Geðlæknar hafa mótmælt þessum niðurskurði harðlega. Í ályktun sem Geðlæknafélag Íslands sendi frá sér á mánudaginn er þeim tilmælum beint til stjórnar Landspítalans og ríkisstjórnarinnar að fallið verði frá þessum breytingum. Er óttast að þetta kunni að stefna allt að 80 geðfötluðum einstaklingum í voða.

Hannes Pétursson, sviðsstjóri lækninga á geðsviði Landspítalans, vísar því á bug að geðfötluðum sé stefnt í voða með þessum breytinum. Hann segir hins vegar um óhjákvæmilegar aðgerðir að ræða. Það sé alltaf mjög sárt þegar draga þurfi saman.

Það sé einfaldlega þannig að Landspítalinn þurfi að draga saman í rekstri og það komi niður á öllum sviðum spítalans. Stjórnendur spítalans hafi reynt að gera þetta með vægasta hætti. Það sé mjög erfitt að ná saman sparnaði sem sé upp á 108 milljónir sem geðsviðinu sé gert að hagræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×