Innlent

Háskólinn í samstarf við Auðlindastofnun Indlands

Frá undirskrifinni. Kristjín Ingólfsdóttir, R.K. Pachauri og Ólafur Ragnar Grímsson.
Frá undirskrifinni. Kristjín Ingólfsdóttir, R.K. Pachauri og Ólafur Ragnar Grímsson.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undirritaði á dögunum samstarfssamning við indverska háskólann TERI (Auðlindastofnun Indlands), um víðtæka samvinnu í umhverfis- og auðlindafræðum, í orku- og jarðvísindum auk samvinnu í rannsóknum á sjálfbærri þróun. Samningurinn, sem var undirritaður í Nýju Delhi á Indlandi, felur einnig í sér gagnkvæm skipti á nemendum og kennurum.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að Nóbelsverðlaunahafinn R.K. Pachauri hafi skrifað undir samstarfssamninginn fyrir hönd TERI en hann tók við friðarverðlaunum Nóbels á síðasta ári ásamt Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna. Pachauri er forstöðumaður TERI en hann hefur einnig starfað sem formaður vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) og tók við Nóbelsverðlaununum sem fulltrúi þeirra.

„Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var við undirritunina á samningi háskólanna en viðstödd athöfnina voru einnig þær Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir stjórnarformaður stofnunarinnar, Jón Atli Benediktsson prófessor í rafmagnsverkfræði og þróunarstjóri Háskóla Íslands og Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands á Indlandi," segir einnig í tilkynningunni.

Þá segir að tilgangur heimsóknar Kristínar Ingólfsdóttur til Indlands hafi verið að þiggja boð Pachauri um að flytja fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsbreytingar auk þess að taka þátt í umræðum við lok ráðstefnunnar og skrifa undir áðurnefndan samning.

„Í heimsókn Kristínar og fylgdarliðs til Indlands kynnti starfsfólk TERI starfsemi stofnunarinnar og áherslur í rannsóknum og kennslu. Sendinefnd Háskóla Íslands kynnti starfið hér heima og valin verkefni á sviði jöklafræði, orkuvísinda, jarðskjálftafræði auk umhverfis- og auðlindafræða. Jafnframt var skýrt frá aðkomu vísindamanna Háskóla Íslands að kennslu í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem starfræktur hefur verið á Íslandi í 30 ár," segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×