Innlent

Ástæða til að hafa áhyggjur af hækkun áburðarverðs

MYND/GVA

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir ástæðu til hafa áhyggjur hækkun áburðarverðs og segir ljóst að það muni leiða til hækkandi framleiðslukostnaðar á landbúnaðarvörum. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstri grænna.

Jón innti ráðherra eftir því hvort hann hygðist bregðast við áhrifum hækkandi áburðarverðs á framleiðslukostnað landbúnaðarvara og verð á þeim til neytenda. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði frjálsa verðlagningu áburði en það væri ástæða til þess að hafa áhyggjur af hækkandi áburðaverði.

Talið væri að áburðaverð myndi hækka um 70 prósent á þessu ári og þá hefði það tvöfaldast á tveimur árum. Þetta myndi að líkindum leiða til þess að framleiðslukostnaður mjólkur myndi hækka um 3-4 krónur á lítra og framleiðslukostnaður á dilkakjöti um 60-70 krónur á kíló. Þá yrði líka kostnaðar hækkun hjá garðyrkjubændum.

Jón spurði einnig hvort ráðherra hygðist láta kanna ástæður fyrir þeim mikla mun sem væri á áburðarverði hér á landi og í nágrannalöndum eins og Noregi. Ráðherra svaraði því til að í Noregi reiknuðu menn með að áburðaverð myndi hækka mikið. Enn fremur sagði hann að verðlagsnefnd búvara myndi funda um hækkun áburðarverðs í dag og sjá hvort hún væri í samræmi við hækkanir annars staðar. Í verðlagsnefndinni sitja fulltrúar bænda, framleiðenda og verkalýðshreyfingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×