Innlent

Ósáttur við niðurstöðu Neytendastofu

Neytendastofa er til húsa í Höfðatorgi.
Neytendastofa er til húsa í Höfðatorgi. MYND.E.Ól

Framkvæmdastjóri Vagnsson MultiMedia er mjög ósáttur við þá ákvörðun Neytendastofu að sekta hann um hálfa milljóni króna fyrir að hafa ekki afskráð lénið tónlist.is eins og fyrri úrskurður Neytendastofu kvað á um. Hann bendir á að lénið sé nú komið í hendur eigenda tonlist.is sem kvartaði til Neytendastofu.

Eins og greint var frá á Vísi í morgun kvartaði eignarhaldsfélagið MúsikNet, sem rekur vefinn tonlist.is, til Neytendastofu yfir skráningu og notkun Vagnsson MultiMedia á léninu tónlist.is. Neytendastofa komst að því í fyrra að Vagnsson MultiMedia hefði brotið gegn lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Var félaginu bannað að nota lénið og gert að afskrá það innan fjögurra vikna. Þegar því var ekki sinnt ákvað Neytendastofa að beita framkvæmdastjóra Vagnsson sektum sem fyrr segir.

Haukur Vagnsson, framkvæmdastjóri Vagnsson MultiMedia, er óhress með ákvörðun Neytendastofu. Hann bendir á að úrskurðarnefnd léna, sem fjallar um deilur vegna léna hér á landi, hafi komist að því að krafa MúsikNets um að lénið tónlist.is yrði umskráð á fyrirtækið, yrði ekki tekin til greina. Neytendastofa hafi svo komist að því að hann hefði brotið gegn lögum um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins en þau lög hafi tekið gildi eftir hann hefði tryggt sér lénið tónlist.is snemma árs 2005.

Haukur bendir enn fremur á frekar ætti að beina spjótunum að ISNIC, sem sér um skráningu og úthlutun léna undir þjóðarléninu .is. „Ég kaupi bara þjónustu af ISNIC í samræmi við þá skilmála sem fyrirtækið setur og ég borga uppsett stofngjald," segir Haukur en þegar Haukur fékk tónlist.is úthlutað gilti reglan „fyrstur kemur, fyrstur fær".

Haukur segist hafa sent Neytendastofu óformlegt bréf þegar stofnunin fjallaði um málið en síðan hafi stofnunin fellt úrskurð um að hann skyldi greiða sektina. Haukur bendir enn fremur á að lénið hafi nú verið látið í hendur þeirra sem reka tonlist.is. fyrirtækisins D3, og fara netnotenddur nú inn á sömu síðu hvort sem þeir slá inn tónlist.is og tonlist.is.

Haukur segist ætla að áfrýja úrskurði Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála og útilokar ekki að fara lengra með málið fallið það ekki honum í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×