Innlent

Gagnrýna yfirvöld fyrir aðgerðaleysi í tengslum við eldsneytishækkanir

MYNDE.Ól

Stjórn Hópferðamiðstöðvarinnar, sem er hagsmuna- og umsýslufyrirtæki margra smárra eigenda hópferðabifreiða, krefst aðgerða vegna mikilla olíuverðshækkana að undanförnu.

Í bréfi sem sent hefur verið forsætis-, fjármála-, viðskipta-, iðnaðar- og samgönguráðherrum er aðgerðaleysi stjórnvalda í málinu harðlega gagnrýnt og bent á að hækkanir á eldsneytisverði vegi harkalega að rekstrargrundvelli hópbifreiðaaksturs.

„Á mörgum sviðum þeirrar greinar ríkir fullkomin samkeppni og því lítið eða ekkert svigrúm til að koma verðsveiflum í olíuverði inn í verðlag til viðskiptavina. Fyrirsjáanlega mun viðvarandi ástand koma enn frekar en orðið er, niður á viðhaldi og endurnýjun bílaflotans, gæðum bílstjóra og annarri starfsemi, áður en þrýstingur á aukin gæði verður ofar kröfu kaupenda um ódýrasta verð. Afleiðing þess verður minna umferðaröryggi á vegum landsins og lægra þjónustustig við þá sem nýta þennan samgöngumáta. Hætta er á að orðspor landsins, þá ekki síst sem áfangastaðar ferðamanna, geti skaðast talsvert til langframa af þessum sökum, verði ekkert að gert.

Við krefjumst því aðgerða af hálfu stjórnvalda, annaðhvort í formi eftirgjafar af hlut ríkisins í olíuverði eða með sértækum aðgerðum til handa rekstraraðilum í hópbifreiðaakstri," segir í bréfi Hópferðamiðstöðvarinnar til ráðamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×