Innlent

Styður Vilhjálm en er til í að verða borgarstjóri

„Ég gef kost á mér að sjálfsögðu," sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir í viðtali við Ísland í dag nú fyrir stundu. Þar sagðist hún ekki skorast undan yrði til hennar leitað sem borgarstjóri. Hún sagðist styðja Vilhjálm sem oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

Hanna Birna sagði ástæðu þess að hún hefði ekki gefið kost á sér í fyrsta sæti flokksins í prófkjöri flokksins vera að hún hefði metið stöðuna þannig að hún fengi örugga kosningu í annað sætið.

Hún sagði umræðuna hinsvegar ótímabæra og að hún styddi Vilhjálm kysi hann að halda áfram sem oddviti flokksins.

Hanna Birna fékk yfirburðarkosningu í könnun sem Capacent Gallup gerði en niðurstöður hennar voru birtar í gær. Þar fékk Hanna Birna 43,9% stuðning svarenda.

Hún sagði niðurstöðuna vissulega gleðja sig persónulega en sagði leiðinlegt að sjá að Vilhjálmur fengi ekki betri niðurstöðu.

Hanna sagðist ekki vita hvaðan þessi könnun kæmi.

Hanna sagði að ef Vilhjálmur kysi að víkja yrði að velja eftirmann hans með því að sem best sátt náist í borgarstjórnarflokknum. „Ég mun ekki skorast undan þeirri ábyrgði verði til mín leitað. En þangað til er Vilhjálmur okkar oddviti."

Þess má geta að Vísir hafði samband við Hönnu Birnu í morgun . Þá sagðist hún vera pikkföst á fundi en myndi hafa samband um leið og hún losnaði. Þegar þessi frétt er skrifuð hafði Hanna Birna ekki enn haft samband við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×