Innlent

Tekið tillit til loðnumála við endurskoðun mótvægisaðgerða

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það þurfi að taka tillit til þess við endurskoðun mótvægisaðgerða ef ekki finnst meiri loðna við landið á þessari vertíð. Þetta kom fram í máli hans í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, spurði ráðherra hvort ríkisstjórnin hefði endurskoðað áform sín varðandi mótvægisaðgerðir eins og boðað hafði verið. Vísaði hann jafnframt til nýjustu tíðinda um að loðnuveiðar yrðu stöðvaðar á hádegi í ljósi þess að Hafrannsóknarstofnun hefði ekki fundið hana í nægilegu magni. Spurði hann jafnframt hvort til stæði að efna til þverpólitísks samstarfs um þessa hluti.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði að þjóðinni hefðu borist mikil ótíðindi í gær varðandi loðnuna en hann teldi að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði tekið þá einu ákvörðun sem hægt var að taka á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar. „Öll vonum við loðnuveiðum sé ekki lokið á þessari vertíð," sagði Geir og benti á að það væri ekki útilokað að loðna fyndist í veiðanlegu magni á næstunni. Þá benti hann enn fremur á að loðnan væri dyntóttur fiskur og ekki í fyrsta sinn sem þetta gerðist. Sagði Geir aðalatriðið að vakta miðin og fylgjast með hvort loðnan færi að gefa sig.

Forsætisráðherra sagði hins vegar að ef ekki fyndist meiri loðna á þessari vertíð þýddi það gjörbreyttar aðstæður víða í landinu á þeim stöðum sem hafa reitt sig öðrum fremur á loðnuveiðar. Þá sagði hann hinar almennu mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á þorskkvóta vera að koma til framkvæmda en ef þetta þunga högg vegna loðnuveiðibannsins yrði að veruleika þyrfti að taka það inn í myndina við endurskoðun mótvægisaðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×