Innlent

Flugvél í sjóinn fyrir austan land

Allt tiltækt lið Landhelgisgæslunnar er nú á leið austur fyrir land þar sem talið er að flugvél hafi farið í sjóinn.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni bárust boð um klukkan hálftólf að eins hreyfils flugvél hefði misst afl og horfið af ratsjá um 130 sjómílur suðsuðaustur af Hornafirði. Skipum á svæðinu hefur verið tilkynnt um slysið og hafa verið beðin um að svipast um eftir vélinni. Þá er varðskip á leið á staðinn.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var vélin að líkindum á leið til Evrópu. Ekki liggur fyrir hvers lensk vélin er en einn maður var um borð í henni.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, er þegar farin af stað en Fokker-flugvél Gæslunnar, TF-SYN, fór í loftið um klukkan hálfeitt.



 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×